Enski boltinn

Van Persie: Þetta var mjög mikilvægur sigur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robin van Persie fagnar í leik með Arsenal.
Robin van Persie fagnar í leik með Arsenal. Nordic Photos / Getty Images
Robin van Persie er maður dagsins í ensku úrvalsdeildinni en hann skoraði þrennu í 5-3 sigri Arsenal á Chelsea á Stamford Bridge.

„Við börðumst mikið og sýndum allir mikinn karakter,“ sagði van Persie eftir leikinn. „Þetta var mjög mikilvægur sigur fyrir okkur.“

Van Persie kom sínum mönnum í 4-3 eftir að John Terry missti af sendingu Florent Malouda. „Ég var hissa á því að Terry skyldi hafa runnið til því þetta var frekar saklaus sending. Ég áttaði mig svo skyndilega á því að ég var einn gegn Petr Cech í markinu og kom ýmislegt upp í hugann. En ég valdi auðveldasta kostinn.“

Aaron Ramsay, leikmaður Arsenal, var virkilega ánægður í leikslok. „Við áttum þetta skilið. Við sköpuðum mörg færi og nýttum mörg þeirra. Loksins er liðið að ná vel saman og er þetta bara sýnidæmi um hvað við erum færir um að gera.“

„Ég er viss um að stjórinn geti fundið eitthvað að varnarleiknum en en það mikilvægasta er að við náðum að vinna leikinn.“

Wenger sagði leikinn hafa verið frábæra skemmtun. „En við verðum að halda okkur á jörðinni og einbeita okkur  að mikilvægum leik á þriðjudaginn.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×