Íslenski boltinn

Óskar Örn meiddur og gæti misst af bikarúrslitunum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Óskar Örn Hauksson í leik með KR.
Óskar Örn Hauksson í leik með KR. Mynd/Daníel
Óskar Örn Hauksson, leikmaður KR, meiddist í leiknum gegn Dinamo Tbilisi í gær og óttast Rúnar Kristinsson, þjálfari liðsins, að hann verði frá næstu vikurnar.

Þetta sagði Rúnar í samtali við Fótbolti.net eftir leikinn í gær. „Við erum mjög áhyggjufullir að það sé eitthvað alvarlegt á ferðinni,“ sagði Rúnar sem sagði Óskar gæti varla stigið í fótinn. „Það gæti hafa brotnað eitthvað lítið bein ofan á ristinni á honum og við erum áhyggjufullir.“

Rúnar vildi þó bíða eftir að Óskar fari í myndatöku og þá fyrst komi í ljós hversu alvarleg meiðslin eru.

Óskar Örn hefur verið einn allra besti leikmaður í Pepsi-deildinni í sumar og hefur spilað alla leiki liðsins í henni. Hann hefur skorað þrjú mörk og lagt upp mörg til viðbótar.

KR mætir Þór í úrslitum Valitor-bikarsins þann 13. ágúst næstkomandi og óvíst hvort að Óskar Örn nái honum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×