Enski boltinn

Anton Ferdinand þakklátur knattspyrnumönnum fyrir stuðninginn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Anton Ferdinand í leik með QPR.
Anton Ferdinand í leik með QPR. Nordic Photos / Getty Images
Anton Ferdiand hefur þakkað knattspyrnumönnum í Englandi, bæði hjá QPR og öðrum félögum, fyrir veittan stuðning í máli hans og John Terry þar sem sá síðarnefndi er sakaður um að hafa beitt Ferdinand kynþáttaníði í leik liðanna um síðustu helgi.

Terry hefur staðfastlega neitað að hafa notað niðrandi orð um litarhaft Ferdinand og segir málið byggt á misskilningi. Upptaka hefur farið um netið þar sem Terry virðist vera að segja það sem honum er gefið að sök en Terry segir að það hafi verið tekið úr samhengi.

„Ég vil þakka leikmönnum eins og Jason Roberts [hjá Blackburn] fyrir veittan stuðning sem og liðsfélögum mínum hjá QPR. Þeir hafa allir verið frábærir og það er gott að vera umkringdur svo góðu fólki,“ sagði Ferdinand við enska fjölmiðla.

Málið er til rannsóknar bæði hjá enska knattspyrnunnar sem og lögreglunni í Lundúnum eftir að ábendingar bárust frá almenningi.

„Það hefur allt verið á öðrum endanum síðustu dagana,“ sagði Ferdinand. „En ég hlakka til þess að spila á sunnudaginn [gegn Tottenham] og ég er eingöngu að hugsa um að spila fótbolta. Það verður alltaf í forgangi hjá mér og það vita þeir sem þekkja mig.“

Enska sambandið mun ræða við bæði Terry og Ferdinand um atvikið sem og mögulega aðra leikmenn sem tóku þátt í leiknum geti þeir varpað ljósi á málið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×