Enski boltinn

Wenger: Vermaelen ekki meiddur en samt tæpur

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Arsene Wenger, stjóri Arsenal, segir að Thomas Vermaelen sé tæpur á tíma fyrir leik liðsins gegn Chelsea á sunnudaginn. Hann sé þó ekki meiddur.

Vermaelen spilaði sinn fyrsta leik eftir tveggja mánaða fjarveru vegna meiðsla er Arsenal vann 2-1 sigur á Bolton í enska deildabikarnum í vikunni. Hann náði þó ekki að spila allan leikinn.

„Það gæti verið að Vermaelen verði með í hópnum,“ sagði Wenger. „Við verðum að sjá til þegar nær dregur leiknum.“

„Hann er þó ekki meiddur. Hann átti í vandræðum með kálfann í leiknum á þriðjudaginn og þurfti þess vegna að fara af velli. Hann fékk krampa vegna þess að það var langt síðan hann spilaði síðast og hann náði þar að auki bara einni æfingu fyrir leikinn.“

„Hann er semsagt ekki meiddur en það gæti verið að hann þurfi aðeins meiri tíma fyrir jafn mikilvægan og erfiðan leik og gegn Chelsea.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×