Enski boltinn

Ferguson: Þetta er búin að vera erfið vika fyrir alla

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester Unired.
Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester Unired. Mynd/Nordic Photos/Getty
Sir Alex Ferguson og lærisveinar hans fá á morgun tækifæri til að losa sig undan skömm sunnudagsins en liðið tapaði þá 1-6 á móti Manchester City á heimavelli sínum Old Trafford. Sigur varaliðs United-liðsins á C-deildarliði Aldershot í vikunni breytir því ekki að frammistaðan á Goodison Park á morgun mun sýna það svart á hvítu hver áhrif skellsins í Manchester-slagnum séu í raun á ensku meistarana.

„Þetta er búin að vera erfið vika fyrir alla því þetta voru mjög slæm úrslit. Við verðum að komast fyrir þennan leik og halda áfram. Út á það gengur þessi leikur," sagði Sir Alex Ferguson, stjóri Manchester Unired, á blaðamannafundi fyrir Everton-leikinn sem fram fór í dag.

„Vonandi getum við komið sterkir til baka eftir vonbrigðin í síðustu viku. Við höfum gert það undanfarin ár og verðum að gera það aftur núna. Þetta er ekkert nýtt í fótboltanum," sagði Ferguson.

„Okkar áskorun í dag snýst eins og áður um að spila eins vel og við getum á þessari stundu," sagði Ferguson sem hafði smá áhyggjur af Ashley Young fyrir leikinn á móti Everton.

„Ashley Young er meiddur á tá. Það er ekkert alvarlegt og vonandi getum við stillt upp nógu sterku liði á morgun," sagði Ferguson en hann býst líka við því að það verði mikið púað á Wayne Rooney, sem lék áður með Everton.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×