Enski boltinn

Man City ætlar ekki að gefa eftir í Tevez deilunni

Roberto Mancini og Carlos Tevez.
Roberto Mancini og Carlos Tevez. Nordic Photos / Getty Images
Eigendur Manchester City ætla ekki að gefa þumlung eftir í deilu félagsins við Argentínumanninn Carlos Tevez. Eins og kunnugt er hefur Tevez ekkert leikið með félaginu frá því hann neitaði að fara inná sem varamaður í Meistaradeildinni á dögunum.

Samskipti Tevez við Roberto Mancini knattspyrnustjóra liðsins fara í gegnum lögfræðinga og svo virðist sem að Man City ætli ekki að lækka verðmiðann á framherjanum sem vill komast sem fyrst frá félaginu.

Corinthians í Brasilíu hefur áhuga á að kaupa Tevez sem Man City verðleggur á 40 milljónir punda eða 7,3 milljarða kr. Forráðamenn Corinthians hafa gefið það í skyn að Man City hafi hug á því að lækka verðið á Tevez um allt að helming þegar leikmannamarkaðurinn opnar í janúar. Talsmaður Corinthians segir að viðræður við Man City séu langt á veg komnar og verðið sé nær því að vera 16 milljónir punda eða sem nemur 3 milljörðum kr.

Enskir fjölmiðlar hafa margir greint frá því að Sheikh Mansour eigandi Man City hafi litlar áhyggjur af þeim kostnaði sem fylgi því að hafa Tevez fyrir utan liðið. Og er jafnvel talið að hinn moldríki eigandi liðsins vilji að Tevez verði haldið fyrir utan liðið það sem eftir er samningstímans – eða í þrjú ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×