Enski boltinn

Chris Smalling hjá Man. United vill vera með á bæði EM og ÓL

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Chris Smalling.
Chris Smalling. Mynd/Nordic Photos/Getty
Chris Smalling, varnarmaður Manchester United, vonast til þess að komast bæði á Evrópumótið og á Ólympíuleikana næsta sumar. Færi svo fengi þessi 22 ára varnamaður lítið sem ekkert sumarfrí því enska úrvalsdeildin byrjar síðan strax eftir Ólympíuleikana í London.

„Ég vil byrja á því að taka það fram að ég er ekki að einbeita mér að enska landsliðinu eða Ólympíuleikunum núna því ég er bara að hugsa um United-liðið. Í lok tímabilsins fer ég hinsvegar að pæla meira í sumrinu og vonandi kemst ég í enska landsliðið og á EM," sagði Chris Smalling í viðtali hjá Manchester Evening News.

„Svo eru Ólympíuleikarnir líka á dagskrá og fullt af strákum sem fóru á EM 21 árs landsliða síðasta sumar fá að vera með þar. Hvort sem ég fái að fara á EM, á Ól eða jafnvel á bæði mótin þá er ég klár í slaginn enda koma svona stórmót ekki á hverju sumri" sagði Smalling.

Chris Smalling hefur fengið fullt af tækifærum á sínu öðru ári með Manchester United og hefur verið í byrjunarliðinu í 9 leikjum þar af 6 þeirra í ensku úrvalsdeildinni. Smalling byrjaði inn á í 11 deildarleikjum á síðustu leiktíð sem var hans fyrsta á Old Trafford síðan að hann kom frá Fulham.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×