Enski boltinn

Carragher byrjar að æfa aftur í næstu viku

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Jamie Carragher á von á því að geta byrjað að æfa á nýjan leik í næstu viku en hann hefu verið frá síðustu vikurnar vegna meiðsla í kálfa.

Carragher hefur misst af síðustu tveimur leikjum Liverpool en hann segir of snemmt að segja til um hvort hann geti spilað með liðinu gegn Chelsea um aðra helgi.

„Þetta er í fyrsta sinn á mínum ferli sem ég hef þurft að glíma við meiðsli í vöðva en þetta er allt á réttri leið hjá mér,“ sagði Carragher við enska fjölmiðla.

„Vonandi næ ég leiknum gegn Chelsea en aðalmálið er að ég fari ekki of snemma af stað og nái fullum bata. Fyrsta markmiðið er að komast aftur á æfingavöllinn og vonandi gerist það í næstu viku.“

„Þetta voru ekki slæm meiðsli og vonandi næ ég mér fljótt aftur á strik.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×