Enski boltinn

Englendingar unnu Heims- og Evrópumeistarana á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Frank Lampard fagnar sigurmarki sínu í kvöld.
Frank Lampard fagnar sigurmarki sínu í kvöld. Mynd/Nordic Photos/Getty
Vængbrotið enskt landslið vann óvæntan 1-0 sigur á Heims- og Evrópumeisturum Spánar í vináttulandsleik á Wembley í kvöld. Frank Lampard bar fyrirliðabandið í leiknum og skoraði sigurmarkið á 49. mínútu leiksins.

Enska landsliðið hafði síðast unnið Spán árið 2001 undir stjórn Sven-Göran Eriksson en spænska liðið var búið að vinna þrjá síðustu leiki þjóðanna með markatölunni 4-0.

Þetta voru athyglisverð úrslit ekki síst þar sem að enska landsliðið var án lykilmanna eins og Wayne Rooney, John Terry og Steven Gerrard og Spánverjar telfdu fram nánast sínu sterkasta liði. Scott Parker og Phil Jones voru saman á miðri miðjunni og stóðu sig vel í baráttunni við Xavi og félaga.

Enska landsliðið lá aftarlega og reyndi að loka svæðum fyrir Spánverja. Spænska liðið fékk nokkur færi og voru þeir David Villa og Cesc Fabregas atkvæðamestir upp við enska markið. Villa átti meðal annars skot í stöngina á marki Englands.

Frank Lampard skoraði sigurmarkið í byrjun seinni hálfleiks þegar hann skallaði boltann inn af marklínu eftir að Darren Bent skallaði aukaspyrnu James Milner í stöngina.

Pepe Reina, markvörður Liverpool, kom inn á fyrir Iker Casillas í hálfleik og var aðeins búinn að vera í markinu í fjórar mínútur þegar hann þurfti að sækja boltann í markið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×