Enski boltinn

Capello: Terry saklaus þar til sekt hans er sönnuð

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Capello kannast ekki við kynþáttafordóma í enska boltanum.
Capello kannast ekki við kynþáttafordóma í enska boltanum. Nordic Photos / Getty
Fabio Capello, landsliðsþjálfari Englands, segir að John Terry verði í landsliðshópi Englands fyrir æfingaleikina gegn Spáni og Svíum. Að hans mati er Terry saklaus af ásökunum um kynþáttafordóma uns sekt hans er sönnuð. Reuters fréttastofan greinir frá þessu.

Terry, sem er fyrirliði enska landsliðsins og Chelsea, liggur undir grun um að hafa sýnt kynþáttafordóma gagnvart Anton Ferdinand í leik Chelsea gegn QPR á dögunum. Terry neitar sök.

Capello, sem hefur þjálfað enska landsliðið síðan árið 2008, segist aldrei hafa orðið vitni að rasisma í enska boltanum.

„Ég hef ekki tekið eftir kynþáttafordómum í enska boltanum. Hvað mig varðar eru vandamál meðal leikmanna vegna kynþáttafordóma ekki til staðar," sagði Capello.

England mætir Spáni á Wembley næstkomandi laugardag og Svíþjóð á sama stað þremur dögum síðar. Landsliðshópurinn verður tilkynntur síðar í dag. Capello hefur sagt Terry að þrátt fyrir að hann verði valinn verði leiktími hans af skornum skammti.

„Það skiptir mig máli að vita hvernig leikmenn bregðast við því að mæta heimsmeisturunum. Ég veit hvar ég hef John Terry en ég vil sjá hvernig hinir leikmennirnir standa sig," sagði Capello.

„Jolean Lescott, Gary Cahill og Phil Jagielka munu spila. Ég vil líka prófa Phil Jones annars staðar á vellinum," sagði Capello en varnarmaðurinn Jones hefur einnig fengið að reyna sig á miðjunni hjá Manchester United.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×