Enski boltinn

Leeds og Cardiff skildu jöfn

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Robert Snodgrass fagnar marki sínu í dag.
Robert Snodgrass fagnar marki sínu í dag. Nordic Photos / Getty IMages
Aron Einar Gunnarsson spilaði allan leikinn fyrir Cardiff sem gerði 1-1 jafntefli gegn Leeds á Elland Road, heimavelli Leeds, í ensku B-deildinni í dag.

Aron Einar komst nálægt því að skora strax í upphafi leiksins en Paul Rachubka, markvörður Leeds, varði skot hans vel.

Joe Mason náði svo að koma gestunum yfir á sautjándu mínútu og lengi vel leit út fyrir að það myndi duga þeim til sigurs, þrátt fyrir að Leeds hafði talsverða yfirburði í leiknum.

Robert Snodgrass náði loksins að koma boltanum fram hjá David Marshall í marki Cardiff þegar hann skoraði með skalla sautján mínútum fyrir leikslok.

Aron Einar skoraði tvö mörk í síðasta leik og komst aftur nálægt því að skora í þessum leik undir lok leiksins. Hann átti þá skalla að marki af stuttu færi en Aidan White, varnarmaður Leeds, náði að bjarga á marklínu.

Leeds er því sem fyrr í sjöunda sæti deildarinnar en nú með 22 stig. Cardiff er í níunda sætinu með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×