Enski boltinn

Verður Wayne Rooney með Bretum á ÓL í London?

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Wayne Rooney.
Wayne Rooney. Mynd/Nordic Photos/Getty
Þriggja leikja bann UEFA á hendur enska landsliðsmanninum Wayne Rooney þykir samkvæmt frétt Guardian auka líkurnar á því Rooney verði með breska landsliðinu á Ólympíuleikunum í London á næsta ári.

Rooney mun missa af allri riðlakeppninni á Evrópumótinu í Úkraínu og Póllandi og enska sambandið hefur opnað dyrnar fyrir því að þeir leikmenn í EM-hóp Englendinga sem spili lítið á EM verði gjaldgengir í breska Ólympíuliðið.

Það þykir eftirsóknarvert að fá að vera með í breska fótboltalandsliðinu en þetta er í fyrsta sinn í 52 ár sem Bretar tefla fram sameiginlegu liði þótt "litlu" þjóðirnar á Bretlandi hafi ekki sýnt þessu verkefni mikinn áhuga.

Það gæti farið svo að Rooney spili engan leik á EM detti enska landsliðið út eftir riðlakeppnina og komist liðið áfram er langt frá því að vera öruggt að Rooney hoppi beint inn í byrjunarliðið hjá liði sem er að standa sig vel.

18 leikmenn skipa Ólympíuliðið, fimmtán þeirra verða að vera yngri en 23 ára en landsliðsþjálfarinn Stuart Pearce má taka með þrjá eldri leikmenn. Pearce þarf að velja endanlega hóp plús fjóra varamenn 8. júlí eða viku eftir að Evrópumótinu lýkur.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×