Íslenski boltinn

Hannes fyrsti markvörðurinn í 27 ár til að vera valinn bestur

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Hannes Þór Halldórsson með Íslandsbikarinn.
Hannes Þór Halldórsson með Íslandsbikarinn. Mynd/Daníel
Hannes Þór Halldórsson, markvörður Íslands- og bikarmeistara KR, var í gærkvöldi valinn besti leikmaður Pepsi-deildar karla af leikmönnum deildarinnar.

Hann er fyrsti markvörðurinn í 27 ár til að fá þessa viðurkenningu og ennfremur fyrsti varnamaðurinn í áratug sem leikmenn telja hafa staðið sig best.

Eini markvörðurinn sem hefur fengið þessa útnefningu áður var Skagamaðurinn Bjarni Sigurðsson sem var valinn bestur þegar þessi verðlaun voru veitt í fyrsta sinn árið 1984. Bjarni stóð þá í marki ÍA sem vann tvöfalt annað árið í röð.

Síðasti varnarmaðurinn á undan Hannesi til að fá þessi verðlaun var Skagamaðurinn Gunnlaugur Jónsson sem var kosinn bestur þegar ÍA vann titilinn síðast sumarið 2001.

Hannes er einnig fyrsti KR-ingurinn í tólf ár sem er kosinn bestur en Guðmundur Benediktsson hafði unnið þessi verðlaun síðast sumarið 1999.

Leikmaður ársins eftir leikstöðum:

12 - Sóknarmaður (1985, 1986, 1988, 1991, 1997, 1999, 2003, 2005, 2007, 2008, 2009, 2010)

8 - Miðjumaður (1987, 1989, 1993, 1995, 1996, 2002, 2004, 2006)

6 - Varnarmaður (1990, 1992, 1994, 1998, 2000, 2001)

2 - Markvörður (1984, 2011)




Fleiri fréttir

Sjá meira


×