Enski boltinn

Tevez líklega sektaður um sex vikna laun eða 275 milljónir króna

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez og sonur.
Carlos Tevez og sonur. Mynd/Nordic Photos/Getty
Það bendir allt til þess að Carlos Tevez verði sektaður um sex vikna laun fyrir að neita að hita upp í Meistaradeildarleik Manchester City á móti Manchester United. Rannsóknarnefnd City fann engin sönnunargögn um að Tevez hafi neitað að spila aðeins að hann hafi neitað að hita upp.

Tevez er með á bilinu 200 til 250 þúsund pund í vikulaun og sex vikna laun ættu að vera allt að 1500 þúsund pundum eða 275 milljónum íslenskra króna.

Roberto Mancini, stjóri Manchester City, hélt því fram eftir leikinn að Tevez hafi neitað að fara inn á en þegar betur var að gáð þá neitaði Tevez víst bara að fara að hita upp í þriðja sinn.

Brian Kidd og David Platt, aðstoðarmenn Mancini, eru báðir á því að Tevez hafi ekki verið viss um hvað hann átti að gera eftir samskiptaleysi við stjórann og Tevez heldur því fram að liðsfélagar sínir muni taka undir hans orð í þessu máli.

Það eru samt flestir á því að Carlos Tevez hafi spilað sinn síðasta leik fyrir Manchester City og verði seldur á útsöluverði í janúar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×