Enski boltinn

Wenger: Ólympíuleikarnir eru fyrir frjálsar íþróttir en ekki fótbolta

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Arsene Wenger.
Arsene Wenger. Mynd/Nordic Photos/Getty
Arsene Wenger hefur áhyggjur af hlutskipti stjóranna í ensku úrvalsdeildinni næsta haust þegar þeir fá landsliðsmenn sína dauðþreytta til sín eftir erfitt sumar. Enska knattspyrnusambandið hefur gefið grænt ljós á það að leikmenn verði bæði með á Evrópumótinu og á Ólympíuleikunum ef að þeir spili takmarkað á EM.

„Á einhverju stigi málsins þurfa menn að ákveða það hvað er hægt að leggja mikið á leikmenn sem þurfa orðið að spila svona marga pressuleiki á hverju ári," sagði Arsene Wenger og bætti við:

„Það er í raun ekkert frí næsta sumar út af Evrópumótinu og Ólympíuleikunumn. Ólympíuleikarnir eru samt ekki alvöru fótboltamót því að mínu mati eru Ólympíuleikarnir fyrir frjálsar íþróttir en ekki fótbolta," sagði Arsene Wenger.

„Ef ég spyr ykkur hver varð Ólympíumeistari í fótbolta fyrir tuttugu árum þá eigið þið örugglega erfitt með að svara því. Þið þekkið hinsvegar betur Evrópumeistarana og hvað þá Heimsmeistaranna frá svipuðum tíma," sagði Wenger.

„Það er mjög slæm hugmynd að láta leikmennina sjálfa ákveða það hvort að þeir geti verið með á báðum mótum eða ekki. Enska knattspyrnusambandið þarf að sýna meiri fyrirhyggju en það," sagði Wenger allt annað en sáttur með þróun mála.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×