Enski boltinn

Roy Keane: Nútímafótboltamenn eru alltof aumir

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Roy Keane.
Roy Keane. Mynd/Nordic Photos/Getty
Roy Keane, fyrrum fyrirliði Manchester United og kandídat í stöðu landsliðsþjálfara Íslands, var fenginn í viðtal hjá Daily Mirror til þess að tjá sig um Manchester-slaginn á morgun.

„Carlos Tevez er búinn að valda báðum stuðningsmannahópnum vonbrigðum en svona er víst fótboltinn í dag. Leikmenn eru að breytast, þeir brjálast þegar þeir eru teknir útaf eða ef þeir fá ekki að fara inn á. Fullt af þeim eru orðnir of linir," sagði Roy Keane við blaðamann Daily Mirror.

„Það þarf hæfileika til að tækla og sparka menn niður. Það er allt í lagi að fá einstaka gult spjald en menn þurfa bara að passa sig á þeim rauðu. Það er alltaf hægt að láta aðeins finna fyrir sér. Það er samt orðið þannig í dag að þegar ég horfi á United-leiki, meira segja þá á móti Arsenal, þá eru allir svo góðir við hvern annan. Nútímafótboltamenn eru bara orðnir alltof aumir," sagði Keane en hvað með leikinn á morgun?

„United-liðið er enn í sárum eftir bikartapið í vor og þeir þurfa að lækka rostann í City. Þeir vita það að það myndi sjokkera alla ef að City myndi vinna þennan leik. Ef ég væri enn að spila fyrir United þá væri þetta leikur sem ég vildi vinna frekar en nokkurn annan. Þeir eru alvöru ógn í titilbaráttunni," sagði Keane.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×