Enski boltinn

Ótrúlegur sigur hjá Blackburn - Sturridge tryggði Chelsea sigur

Yohan Cabaye fagnar marki sínu í kvöld.
Yohan Cabaye fagnar marki sínu í kvöld.
Blackburn og Chelsea komust í kvöld áfram í enska deildarbikarnum en báðir leikir voru framlengdir. Gríðarleg dramatík var í leik Blackburn og Newcastle.

Menn voru ekki alveg á skotskónum í leik Everton og Chelsea. Nicolas Anelka byrjaði á því að misnota vítaspyrnu á 16. mínútu en Salomom Kalou bætti fyrir það með því að koma Chelsea yfir fyrir hlé.

Everton fékk úrvalsfæri til þess að jafna hálftíma fyrir leikslok er komið var að þeim að fá víti. Leighton Baines ákvað þó að herma eftir Anelka og klúðra vítinu.

Það kom þó ekki að sök því Louis Saha tókst að jafna metin er átta mínútur lifðu leiks. Áður hafði Chelsea misst Roos Turnbull af velli með rautt spjald. Það varð að framlengja.

Eftir aðeins sex mínútur af framlengingunni var orðið jafnt í liðum er Royston Drenthe fékk rautt. Það nýtti Chelsea sér í botn og Daniel Sturridge skoraði sigurmarkið er fimm mínútur voru eftir af framlengingunni.

Ruben Rochina kom Blackburn yfir eftir fimm mínútna leik gegn Newcastle og Yakubu bætti öðru marki við úr víti á 63. mínútu.

Lokasprettur Newcastle var ótrúlegur. Danny Guthrie minnkaði muninn á 93. mínútu og Yohan Cabaye jafnaði leikinn er sex mínútur voru komnar fram yfir venjulegan leiktíma.

Þó svo leikmenn Blackburn hafi verið slegnir þá náði Morten Gamst Pedersen að koma þeim aftur yfir á 98. mínútu.

Peter Lovenkrands jafnaði aftur fyrir Newcastle úr víti á 105. mínútu og það var vel við hæfi að þessi brjálaði leikur skildi klárast með sigurmarki á lokamínútunni. Það mark skoraði Gael Givet fyrir Blackburn.

Úrslitin:

Blackburn-Newcastle  4-3

1-0 Ruben Rochina (5.), 2-0 Yakubu Aiyegbeni, víti (63.)., 2-1 Danny Guthire (90.+3), 2-2 Yohan Cabaye (90.+6), 3-2 Morten Gamst Pedersen (98.), 3-3 Peter Lovenkrands, víti (105.), 4-3 Gael Givet (120.).

Everton-Chelsea 1-2

0-1 Salomon Kalou (37.), 1-1 Louis Saha (82.), 1-2 Daniel Sturridge (115.)






Fleiri fréttir

Sjá meira


×