Enski boltinn

City neyðist til að lækka sektarupphæð Tevez

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Carlos Tevez í leik með Manchester City.
Carlos Tevez í leik með Manchester City. Nordic Photos / Getty Images
Manchester City á engra annarra kosta völ en að lækka sekt Carlos Tevez um helming þar sem að samtök knattspyrnumanna á Englandi neituðu að styðja upphaflega sekt félagsins.

City sektaði Tevez um fjögurra vikna laun, líklega um eina milljón punda, fyrir að neita að koma inn á sem varamaður í leik City og Bayern München í Meistaradeild Evrópu í síðasta mánuði.

City þurfti þó að bera refsinguna undir leikmannasamtökin ensku sem sagði að nóg væri að sekta leikmanninn um tveggja vikna laun sem er sú hámarksrefsins sem hægt er að beita án samþykktar leikmannasamtakanna. Gordon Taylor, formaður samtakanna, sagði upphaflega sektin sem City beitti Tevez hafi verið of harkaleg.

Tevez hefur haldið því fram að hann hafi einungis neitað að hita upp og styðja leikmannasamtökin þá staðhæfingu.

„Carlos Tevez hefur notið stöðugra ráðgjafar Gordon Taylor, formanni leikmannasamtakanna, í þessu máli og skilst okkur að það hafi haft bein áhrif á ákvörðun leikmannasamtakanna,“ sagði í yfirlýsingu sem City sendi frá sér í gær.

„Manchester City hefur verið í stöðugu sambandi við samtökin frá 28. september og ákvörðun samtakanna er ekki í samræmi við skilning félagsins á þeim viðræðum.“

Taylor hafnaði þeirri staðhæfingu City að um hagsmunaárekstur hafi verið að ræða í aðkomu hans að málinu og að ekkert hefði réttlæt jafn harða refsingu og sviptingu launa í fjórar vikur.

Miðað við að vikulaun Tevez séu um 250 þúsund pund minnkaði sektin úr einni milljón punda í hálfa milljón.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×