Enski boltinn

Öruggur sigur Liverpool á West Brom

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Charlie Adam skorar í leiknum í dag.
Charlie Adam skorar í leiknum í dag. Nordic Photos / Getty Images
Liverpool vann í dag öruggan 2-0 sigur á West Brom í lokaleik dagsins í ensku úrvalsdeildinni. Charlie Adam og Andy Carroll skoruðu mörk Liverpool en Luis Suarez átti stóran þátt í þeim báðum.

Tónninn var gefinn snemma í leiknum þegar að Lee Mason dæmdi vítaspyrnu á Jerome Thomas fyrir að brjóta á Luis Suarez. Um réttan dóm var að ræða og skoraði Charlie Adam örugglega úr vítinu.

Leikmenn Liverpool vildu svo fá tvær vítaspyrnur til viðbótar í fyrri hálfleik en allt kom fyrir ekki. En gestirnir áttu þó ekki í teljandi vandræðum með leikinn og uppskáru annað mark skömmu fyrir leikhlé.

Andy Carroll var þar að verki eftir frábæra sendingu Luis Suarez en Jonas Olsson hafði gefið boltann klaufalega frá sér stuttu áður.

Seinni hálfleikur var að mestu tíðindalítill og sigur þeirra rauðklædu aldrei í hættu. Leikmenn West Brom voru svo stálheppnir að fá ekki þriðja markið á sig undir lok leiksins þegar að Stewart Downing átti skot í stöng.

Liverpool komst upp í átján stig með sigrinum og upp í fimmta sæti deildarinnar. Tottenham dettur því niður í sjötta sætið en liðið á leik til góða gegn QPR á morgun. West Brom datt niður í þrettánda sæti deildarinnar í dag en liðið er með ellefu stig eftir tíu leiki.



Staðan í ensku úrvalsdeildinni





Fleiri fréttir

Sjá meira


×