Enski boltinn

FIFA-reglur gætu frelsað Tevez frá City

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
Svo gæti farið að Carlos Tevez geti losnað undan samningi sínum frá Manchester City næsta sumar vegna reglugerðar FIFA, Alþjóðaknattspyrnusambandsins.

Samkvæmt reglunum er atvinnumönnum í knattspyrnu heimilt að rifta samningi sínum við félög sín ef þeir taka þátt í minna en tíu prósentum af leikjum síns liðs.

Tevez hefur hingað til tekið þátt í fimm leikjum og eins og er öruggt að City spilar minnst 48 leiki á tímabilinu. Ef liðið kemst upp úr riðlakeppni Meistaradeildarinnar og eitthvað áfram í bikarkeppnunum á Englandi, eins og miklar líkur eru á, mun fjöldi leikja fara yfir 50.

Ef Tevez spilar ekkert meira með City á leiktíðinni, eins og Roberto Mancini hefur lýst yfir, ætti hann samkvæmt reglunum möguleika á að losa sig undan samningnum við City.

Það er vitanlega mikið í húfi fyrir City því þrátt fyrir allt er Tevez verðmæt eign sem félagið ætti að geta selt fyrir háar fjárhæðir. Samkvæmt breska blaðinu The Guardian vita forráðamenn City af reglunni en þeir eru vongóðir um að Tevez geti ekki nýtt sér hana.

Reglan er svo að knattspyrnumenn fái réttláta meðferð hjá sínum félögum en Tevez var á dögunum sektaður um tveggja vikna laun fyrir að neita að koma inn á sem varamaður í leik gegn Bayern München. Það gæti unnið gegn Tevez enda telja forráðamenn City að reglan sé ekki fyrir leikmenn sem eru í ónáð vegna agabrota.

En komi í ljós að Tevez gæti nýtt regluna sér í hag er mögulegt að forráðamenn City neyðist til að velja hann í leikmannahópinn án þess þó að láta hann spila, því það telur einnig að vera á meðal varamanna í leikjum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×