Enski boltinn

Dalglish: Vitum ekki hvað Gerrard verður lengi frá

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Gerrard í leik með Liverpool gegn Manchester United fyrr í þessum mánuði.
Gerrard í leik með Liverpool gegn Manchester United fyrr í þessum mánuði. Nordic Photos / Getty Images
Kenny Dalglish sagði eftir leik Liverpool og West Brom í gær að það væri of snemmt að segja til um hversu lengi Steven Gerrard yrði frá keppni.

Gerrard gat ekki tekið þátt í 2-0 sigri sinna manna í Liverpool þar sem hann er með sýkingu í ökkla. Fyrir leikinn voru sögusagnir á kreiki um að Gerrard yrði jafnvel frá keppni fram yfir jól.

„Við verðum í fríi á morgun [í dag] og mætum svo aftur á mánudag eða þriðjudag. Það verður því meira hægt að segja þá,“ sagði Dalglish.

„Við höfum engan áhuga á að giska eitthvað út í loftið. Ég hef ekki hugmynd um hvort hann missi af landsleikjunum í næsta mánuði en þetta hefur ekkert með gömlu meiðslin hans að gera enda er þetta sýking.“

Gerrard var nýlega byrjaður að spila á nýjan leik eftir sex mánaða fjarveru vegna meiðsla í nára.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×