Íslenski boltinn

Leikmaður Vals sagður hafa veist að vallarþuli Fram

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Úr leik Fram og Vals í gær.
Úr leik Fram og Vals í gær. Mynd/Anton
Steingrímur Sævarr Ólafsson, sem var vallarþulur á leik Fram og Vals í gær, staðhæfir að leikmaður Vals hafi veist að sér eftir leikinn í gær.

„Leiddist ekki sem vallarþul í kvöld,“ skrifar hann á spjallborð Fram.

„Hins vegar fóru úrslitin og leikurinn í heild verulega í taugarnar á Völsurum og fékk undirritaður einmitt að kenna á því í leikslok þegar leikmaður Vals veittist að mér í göngunum niðri, hrinti mér og öskraði á mig að læra að haga mér almennilega "helvítið þitt" eins og hann orðaði það.“

Valsmönnum líkaði ekki við framkomu Steingríms samkvæmt heimildum Vísis. Þegar hann tilkynnti um skiptingar lét hann um leið vita hver staðan væri í leiknum - sem tíðkast vitanlega ekki.

„Þetta var algjör dónaskapur,“ sagði heimildamaður Vísis úr herbúðum Vals. Ekki hefur fengist staðfest hvort eða hvaða leikmaður átti þarna í hlut.

Mikill hiti var í leikmönnum undir lok leiksins og fengu Valsararnir Arnar Sveinn Geirsson og Jónas Tór Næs báðir að líta rauða spjaldið í uppbótartíma.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×