Íslenski boltinn

Átti Árni markið þrátt fyrir allt?

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Mikill ruglingur hefur verið um hver hafi skorað fyrra mark Breiðabliks í 2-1 sigri liðsins á Fylki í gær. Líklegast var það rétt sem kom fram í upphafi - að Árni Vilhjálmsson hafi skorað markið.

Markið er þó skráð á Guðmund Kristjánsson sem átti vissulega skalla að marki eftir hornspyrnu frá hægri.

Hins vegar þykir sýnt á sjónvarpsupptökum að boltinn hafi verið að stefna út af eftir skalla Guðmundar. Boltinn hafi svo breytt um stefnu á öðrum leikmanni og hafnað þar í markinu.

Árni og félagi hans, Dylan Macallister, voru báðir í boltanum sem og Fylkismaðurinn Ásgeir Börkur Ásgeirsson. Sá fyrstnefndi segir í samtali við Vísi að hann hafi náð að snerta boltann með tánni.

„Við ræddum þetta eftir leik í gær og við vorum sammála um það, ég og Dylan, að ég náði að pota tánni í boltann," sagði Árni við Vísi í dag.

Ásgeir Örn Arnþórsson, varnarmaður Fylkis sem stóð við stöngina, fékk einnig boltann í sig á leið hans í markið. Þó er ekki um sjálfsmark að ræða þar sem að boltinn var hvort eð er á leið í markið.

Dómari leiksins, Magnús Þórisson, segist líka hafa efast um að Guðmundur hafi skorað markið þegar hann sá atvikið í sjónvarpi í gær. „Mér sýndist hann hafa viðkomu í öðrum leikmanni og er sjálfsagt að endurskoða þetta," sagði hann við Vísi.

Upptöku af markinu má sjá hér fyrir ofan og getur hver dæmt fyrir sig. En svo virðist sem að hinn sautján ára Árni Vilhjálmsson hafi skorað sitt fyrsta mark í efstu deild á Fylkisvellinum í gær.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×