Íslenski boltinn

ÍA tapaði fyrir lærisveinum Guðjóns - fögnuðinum frestað

Eiríkur Stefán Ásgeirsson á Akranesvelli skrifar
Hjörtur Júlíus Hjartarson og Gary Martin.
Hjörtur Júlíus Hjartarson og Gary Martin. Mynd/Guðmundur Bjarki Halldórsson
Einhver bið verður á því að ÍA tryggir sér sæti í Pepsi-deildinni því að Skagamenn töpuðu óvænt fyrir BÍ/Bolungarvík á heimavelli, 2-1.

Guðjón Þórðarson er sem kunnugt er þjálfari BÍ/Bolungarvíkur en hann var áður leikmaður og þjálfari ÍA til margra ára. Síðast þjálfaði hann Skagamenn árið sem liðið féll úr efstu deild, árið 2008.

ÍA hefur verið með mikla yfirburði í 1. deildinni í sumar en í kvöld var sigurganga liðsins stöðvuð. Tomi Ameobi skoraði bæði mörk gestanna en Ólafur Valur Valdimarsson fyrir ÍA. Það var mikið fjölmenni á Akranesvelli í kvöld og flestir voru komnir til að sjá lið ÍA vinna sér sæti í efstu deild á ný. Það tókst þó ekki í þetta sinnið en ÍA mætir ÍR á þriðjudaginn og getur þá tryggt sér úrvalsdeildarsætið langþráða.

Tomi Ameobi kom gestunum yfir úr vítaspyrnu í fyrri hálfleik sem hann fiskaði sjálfur. Reynir Leósson var dæmdur brotlegur en hann mótmælti dómnum kröftuglega.

Ólafur Valur Valdimarsson jafnaði metin á 39. mínútu en Skagamenn komust aldrei í gang í seinni hálfleik. BÍ/Bolungarvík tók öll völd á vellinum og fékk fjölmörg færi til að komast yfir. Það tókst loksins á 84. mínútu er Ameobi skallaði fyrirgjöf Nicholas Deverdics í netið.

Varamaðurinn Fannar Freyr Gíslason fiskaði þó víti fyrir heimamenn skömmu fyrir leikslok en allt kom fyrir ekki - Þórður Ingason varði frá Mark Doninger og þar við sat. BÍ/Bolungarvík vann 2-1 sigur.

Gary Martin fékk að líta rauða spjaldið í síðari hálfleik fyrir fólskulega tæklingu og verður hann því í banni þegar að Skagamenn mæta í Breiðholtið eftir helgi.

Leiknum var lýst beint á Boltavakt Vísis og Fréttablaðsins og má lesa lýsinguna hér fyrir neðan.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×