Enski boltinn

Pardew og Wenger sjá hlutina í afar ólíku ljósi

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Wenger og Pardew lenti saman um árið þegar Pardew var knattspyrnustjóri West Ham.
Wenger og Pardew lenti saman um árið þegar Pardew var knattspyrnustjóri West Ham. Nordic Photos/AFP
Joey Barton var miðpunktur athyglinnar í markalausu jafntefli Newcastle og Arsenal á St. James' Park í gær. Fílabeinstrendingurinn Gervinho sá rautt eftir viðskipti við Barton.

„Ég tel mig hafa séð atvikið betur en dómarinn. Þetta var bara rifrildi, dómarinn hefði getað gefið tvö gul eða tvö rauð. Gervinho átti ekki skilið að vera rekinn útaf að mínu mati og Barton var klárlega ekki sleginn það fast að hann þurfti að liggja á jörðinni í tvær mínútur. Ég ætla að skoða þetta vel áður en við tökum ákvörðun um hvort við áfrýjum brottvísuninni," sagði Wenger.

Þetta er annað tímabilið í röð sem leikmaður Arsenal sér rautt á opnunardeginum í sínum fyrsta leik með Arsenal. Frakkinn Laurent Koscielny var rekinn af velli í jafntefli gegn Liverpool á Anfield fyrir ári.

Alan Pardew knattspyrnustjóri varði miðjumanninn sinn.

„Í fyrst lagi var þetta dýfa hjá Gervinho, engin spurning. Viðbrögð Joey voru að láta hann heyra það sem ég get skilið. Síðan voru þeir að kljást og Gervinho sló hann. Það má ekki. Ég ætla ekki að láta eins og Joey sé kórdrengur, okkur hefur lent saman en í þetta skiptið hélt hann ró sinni. Hann var bara ósáttur við leikmann sem reyndi að leika á dómarann og það gerir hann ekki að skúrki. Hann er bara skoðunarglaður drengur, það er allt og sumt," sagði Pardew.

Gervinho fer að öllu óbreyttu í þriggja leikja bann fyrir brottvísunina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×