Íslenski boltinn

Umfjöllun: Halldór Orri sendi Fram nánast niður um deild

Benedikt Bóas Hinriksson á Stjörnuvelli skrifar
Stjarnan og Fram mætast á teppinu í Garðabænum í kvöld.
Stjarnan og Fram mætast á teppinu í Garðabænum í kvöld. Mynd/Anton
Þegar 89 mínútur voru komnar á klukkuna í Garðabænum var staðan 2-1 fyrir Fram og allt í blóma. En Halldór Orri Björnsson tók sig þá til og komst einhvern veginn með boltann inn í teiginn þar sem hann stóð allt í einu gapandi frír og skoraði jöfnunarmarkið.

Ótrúlegt mark en einhvern veginn lýsir þetta gengi Fram í sumar.

Þeir loka engum leikjum. Þeir voru betri í fyrri hálfleik, börðust og gerðu í raun allt sem til þarf að vinna fótboltaleik en því miður þá dugði það ekki. Jafntefli staðreynd og Grindavík vann Keflavík og þar með er staðan nánast orðinn vonlaus fyrir Safamýrapilta.

Fyrri hálfleikur var samt eitt standandi partý. Fjör og læti, frábær mörk og stórskemmtileg tilþrif. Garðar Jóhannsson skoraði eitt af mörkum sumarsins með frábæru skoti en Fram svaraði með mörkum Steven Lennon og Almarrs Ormarssonar. 2-1 var staðan í hálfleik og Fram fékk nokkur góð færi til að klára dæmið. En því miður þá var Ingvar í marki Stjörnunnar í stuði og varði allt sem á markið kom.

Stjörnumenn hættu að spila fótbolta í síðari hálfleik. Enginn vildi vera með boltann og það var eins og menn væru stressaðir þegar þeir loksins fengu hann. Boltinn var svo sannarlega ekki vinur Stjörnupilta í rokinu í Garðabæ. Gervigrasið naut sín ekki því boltinn var alltaf uppi í loftinu.

En Halldór Orri jafnaði undir lokin og nánast sendi Fram niður í fyrstu deild. Það voru því súrir og jafnvel fúlir leikmenn Fram sem gengu að velli í Garðabæ, vitandi að þeir spila ekki aftur á þessu gervigrasi á næsta ári.

Stjarnan - Fram 2-2

1-0 Garðar Jóhannsson (16.)

1-1 Steven Lennon (20.)

1-2 Almarr Ormarsson (25.)

2-2 Halldór Orri Björnsson (89.)

Skot (á mark): 12-8 (6-6)

Varin skot: Ingvar 4 – Ögmundur 4

Horn: 5-0

Aukaspyrnur fengnar: 15-12

Rangstöður: 5-9




Fleiri fréttir

Sjá meira


×