Íslenski boltinn

Ólafur Þórðar: Félagið hefur ekkert keypt á þremur árum

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis.
Ólafur Þórðarson, þjálfari Fylkis, segir að hann hafi fengið úr litlu að moða þegar kemur að uppbyggingu liðsins á undanförnum árum. Liðið tapaði í kvöld, 3-1, fyrir ÍBV á heimavelli.

„Mér fannst nú fyrri hálfleikurinn vera nokkuð jafn, hvað fótboltann varðar. Eini munurinn var sá að þegar við misstum boltann nenntum við ekki að verjast. Eyjamenn gerðu það. Við kláruðum heldur ekki þau færi sem við fengum," sagði Ólafur við Vísi eftir leikinn en Eyjamenn skoruðu öll sín mörk í fyrri hálfleik í kvöld.

„Það var svo sem lítið annað í stöðunni en að fara út í seinni hálfleik af fullum krafti. En það sem menn verða einfaldlega að átta sig á að þeir hafa ákveðnum skyldum að gegna. Þeir eiga að berjast fyrir félagið sitt þegar þeir eru komnir í keppnisbúninginn."

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Ólafur hefur sent sínum leikmönnum þessi skilaboð í sumar en hann bendir reyndar á að það sé fleira sem komi til.

„Fyrir þennan leik vorum við ekki nema fjórum stigum á eftir ÍBV og því hefur þetta ekki verið alslæmt. Við erum búnir að missa ansi marga menn í sumar og við höfum ekki fengið neina leikmenn til félagsins í þrjú ár. Við höfum tekið endalaust af leikmönnum upp úr yngri flokkunum og það tekur bara langan tíma að búa til gott lið úr því."

„Það er ekkert við því að gera. Félagið hefur ekki verið tilbúið til að sækja leikmenn og því hef ég ekki úr neinu að moða. Það eru bara fullt af gæðum farin úr liðinu - flóknara er það ekki."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×