Íslenski boltinn

Arnar Gunnlaugsson: Vantaði að menn fórni sér fyrir málsstaðinn

Hjalti Þór Hreinsson á Akureyri skrifar
Arnar Gunnlaugsson var þungt hugsi eftir tap Fram gegn Þór í kvöld. Liðið er á hraðri leið niður í 1. deildina eftir 3-0 tap og ráðleysið virðist ríkja í Safamýrinni.

Við gefum Arnari einfaldlega orðið.

"Það var vendipunktur í stöðunni 1-0 þegar við fengum algjört dauðafæri til að jafna en markmaðurinn þeirra varði vel. Eftir það klúður sá maður hvernig vonleysið færðist yfir okkur og jákvæðnin yfir til þeirra. Svona vill þetta oft verða. Fótboltinn snýst um móment. Þeir gengu á lagið og þeir voru bara meiri karlmenn en við í dag."

"Menn fóru að vorkenna sjálfum sér, nöldra í dómaranum og allt á móti manni. Heimurinn að hrynja og allur sá pakki."

"Það eina jákvæða við þetta er að nú verða menn bara að einbeita sér að því að spila fótbolta, af því liðið er bara fallið eins og staðan er í dag. Menn verða að gera það sem þeir hafa gert frá því þeir fæddust, taka boltann niður og senda hann, án þess að hafa allar heimsins áhyggjur á herðum sér."

"Þetta var algjör úrslitaleikur og við sýndum enga karlmennsku á tímabili. Það er ótrúlegt að segja að við höfum spilað tvo leiki gegn Þór og ekki skorað, ég hefði haldið að þú værir klikkaður ef þú segðir mér það eftir leikina sem hlutlaus aðili."

"Þetta er fótboltinn í hnotskurn. Það hjálmar manni enginn nema maður sjálfur. Það eru allir að bíða eftir augnabliki sem snýr tímabilinu við, bolti sem hrekkur inn af varnarmanni eða einhver neglir í skeytin af 40 metra færi."

"Það sást hvernig við koðnuðum aðeins niður. Það vantaði einhvern neista í liðið og að menn fórni sér fyrir málsstaðinn," sagði Arnar.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×