Íslenski boltinn

Heimir: Feginn að hafa ekki spilað enn við KR

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson, þjálfari ÍBV.
Heimir Hallgrímsson, segist vera því feginn að hafa ekki enn spilað við KR í sumar en ÍBV komst upp í annað sæti Pepsi-deildar karla í kvöld með 3-1 sigri á Fylki í kvöld.

„Þetta var mjög sannfærandi hjá okkur og fyrri hálfleikurinn var með því betra sem við höfum sýnt í sumar. Þeir fengu nánast ekki færi allan leikinn - kannski aðeins í lokin þegar þeir skoruðu markið en þá vorum við kærulausir.“

„Annars var þetta góður varnarleikur heilt yfir og sannfærandi sigur liðsheildarinnar.“

ÍBV hefur oftar en ekki átt erfitt uppdráttar í fyrsta leik eftir Þjóðhátíð í Eyjum en annað var upp á teningnum nú. Heimir gerði þar að auki fimm breytingar á sínu liði frá bikartapinu gegn Þór í síðustu viku og setti til að mynda fjóra erlenda leikmenn á bekkinn.

„Það var ekki með ráðum gert. Við æfðum einfaldlega vel um helgina og ég reyndi að velja þá leikmenn í liðið sem ég taldi að væru tilbúnir í mikinn bardagaleik eins og þeir vilja oft verða í Árbænum.“

ÍBV er nú með 25 stig eftir tólf leiki en KR er á toppnum með 27 stig eftir ellefu leiki. Þessi lið eiga einmitt eftir að mætast í sumar og er Heimir feginn því að hafa sloppið við KR hingað til.

„Afar feginn. Við höfum verið ansi sveiflukenndir í sumar og það megum við ekki ef við ætlum að halda í við KR. Þeir hafa verið stöðugir en vonandi kemur einhvern tíma niðursveifla hjá þeim og þá helst þegar þeir eiga að mæta okkur.“

„Eins og staðan er núna eru þeir með algert yfirburðalið. Þeir byrjuðu ekki vel en unnu sína leiki á meðan þeir voru slakir. Þegar þeir byrjuðu svo að spila vel átti ekkert lið séns í þá.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×