Enski boltinn

Japanski snillingurinn kominn með atvinnuleyfi - má spila með Arsenal

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ryo Miyaichi fagnar marki í leik með Feyenoord á síðasta tímabili.
Ryo Miyaichi fagnar marki í leik með Feyenoord á síðasta tímabili. Nordic Photos/AFP
Japanska ungstirnið Ryo Miyaichi, leikmaður Arsenal, er kominn með atvinnuleyfi. Kantamaðurinn 18 ára, sem var í láni hjá Feyenoord í Hollandi á síðustu leiktíð, er því klár í slaginn með lærisveinum Arsene Wenger.

Miyaichi gekk til liðs við Arsenal í janúar síðastliðnum en fór strax á lán til Feyenoord. Frammistaða Miyaichi hjá Feyenoord þótti afar góð en hann skoraði þrjú mörk í tólf leikjum með liðinu. Hann var meðal annars valinn maður leiksins í sínum fyrsta leik fyrir félagið.

Miyaichi þótti spila afar vel á undirbúningstímabilinu með Arsenal. Arsene Wenger knattspyrnustjóri Arsenal er afar ánægður með tíðindin af atvinnuleyfi Japanans.

„Við erum í skýjunum að Ryo hefur fengið atvinnuleyfi. Það má líkja þessu við kaup á nýjum leikmanni þar sem við vorum alls ekki vissir um að hann fengi leyfið. Ryo hefur lagt afar hart að sér á undirbúningstímabilinu og spilaði frábærlega í leikjunum í Asíu, Þýskalandi og Portúgla," sagði Wenger.

Wenger segir Miyaichi hafa mikla tækni. Þá hafi hann gott jafnvægi og yfirnáttúrulegan hraða. Sendingar hans og fyrirgjafir séu í hæsta gæðaflokki.

„Hann er spennandi leikmaður. Hann stóð sig afar vel hjá Feyenoord á síðasta tímabili sem gaf honum tækifæri að spila reglulega. Við hlökkum til framlags hans í búningi Arsenal á komandi leiktíð," sagði hinn hámenntaði Wenger.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×