Íslenski boltinn

Víkingar ósáttir við bann Abdulahi: Þetta er algjört bull

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Abdulahi er hér í leik gegn KR.
Abdulahi er hér í leik gegn KR.
Víkingar eru vægast sagt svekktir út í aganefnd KSÍ sem dæmdi leikmann þeirra, Denis Abdulahi, í tveggja leikja bann fyrir brot sem átti sér stað í bikarleik gegn KV. Í uppbótartíma lenti Abdulahi saman við einn leikmann KV, þeir settu höfuðin saman og Abdulahi var sendur af velli.

Víkingar líkja þessu spjaldi við rauða spjaldið sem Tryggvi Guðmundsson, leikmaður ÍBV, fékk gegn Val. Þá setti Tryggvi höfuðið í Hauk Pál Sigurðsson og var rekinn af velli. Fyrir það fékk Tryggvi eins leiks bann en Abdulahi fékk tveggja leikja bann.

"Þetta er mesta bull sem ég hef upplifað," sagði hundfúll framkvæmdastjóri knattspyrnudeildar Víkings, Haraldur Haraldsson.

"Þetta brot er svo lítið að það hálfa væri nóg. En fyrst hann fékk rautt áttum við aldrei von á meira en eins leiks banni. Ég skil þetta bara ekki. Er þetta af því að annar er útlendingur en hinn ekki?" spyr Haraldur.

"Hvar er línan eiginlega orðin í fótboltanum í dag? Það er ómögulegt að átta sig á því. Brotið hjá okkar manni er minna en hjá Tryggva. Það gerðist ekkert í kjölfarið sem gæti útskýrt af hverju hann fær tveggja leikja bann."

Víkingar geta ekkert frekar gert í málinu enda ekki hægt að áfrýja tveggja leikja banni. Þeir verða því að sætta sig við dóminn.

"Þrátt fyrir það viljum við ekki sætta okkur við þetta þegjandi og hljóðalaust. Þetta er sami dómarinn [Leiknir Ágústsson] og átti gloríuna hjá BÍ/Bolungarvík og ÍR. Það varð þess valdandi að formaður dómaranefndar hringdi í Guðjón Þórðarson og bað hann afsökunar.

"Það er spurning hvort hann þufi að biðjast afsökunar aftur. Svo er spurning hvort Leiknir þurfi ekki að gera eitthvað annað en að dæma á sumrin. Hann er garðyrkjufræðingur skilst mér. Spurning hvort hann einbeiti sér ekki að því á sumrin," sagði Haraldur svekktur.

Víkingar hafa sent inn kvörtun til KSÍ formsins vegna en það mun ekki skila þeim neinu. Abdulahi verður í banni í næstu leikjum.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×