Enski boltinn

Terry myndi fagna að fá Hiddink eða Hughes

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
John Terry, fyrirliði Chelsea, sagði í dag að hann myndi fagna því ef annað hvort Mark Hughes eða Guus Hiddink yrði næsti knattspyrnustjóri liðsins.

Hiddink er fastur í starfi landsliðsþjálfara Tyrklands en hefur gefið í skyn í fjölmiðlum að hann vilji losna þaðan til að geta tekið við Chelsea.

Þá kom Mark Hughes mörgum að óvörum í gær er hann tilkynnti að hann myndi ekki halda áfram sem knattspyrnustjóri Fulham.

„Það eru miklar vangaveltur um þetta mál eins og er,“ sagði Terry við enska fjölmiðla í dag.

„Mér fannst mjög leiðinlegt að Carlo (Ancelotti) hafi farið en við leikmenn munum bíða eftir því hvaða ákvörðun verður tekin næst. Margir hafa verið orðaðir við stöðuna að undanförnu.“

Hann vonast til að forráðamenn muni ræða við Hughes. „Ef hann verður fyrir valinu munum við leikmennirnir taka vel á móti honum.“

Hiddink stýrði á sínum tíma Chelsea tímabundið fyrir tveimur árum síðan með góðum árangri.

„Okkur gekk mjög vel undir hans stjórn og myndum taka líka vel á móti honum. En við höfum lítið um þetta að segja.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×