Enski boltinn

Engin krísa hjá FIFA

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Sepp Blatter á blaðamannafundinum í gær.
Sepp Blatter á blaðamannafundinum í gær. Nordic Photos / Getty Images
Sepp Blatter hélt í gær skrautlegan blaðamannafund í höfuðstöðum Alþjóða knattspyrnusambandsins, FIFA, í Sviss.

Mikið hefur gengið á hjá FIFA síðustu daga og vikurnar vegna ásakana um spillingu sem hefur gengið manna á milli.

Á morgun verður haldin forsetakosning hjá FIFA en sá eini sem er í framboði er núverandi forseti, Sepp Blatter. Mohamed Bin Hammam var í mótframboði en dró það til baka skömmu áður en siðanefnd FIFA dæmdi hann í tímabundið bann vegna mútustarfssemi.

Á sama tíma var Jack Warner, varaforseti FIFA og forseti Knattspyrnusambands Mið- og Norður-Ameríku, einnig vikinn tímabundið frá starfi vegna sömu ásakana.

Warner svaraði með því að halda því fram að Jerome Valcke, framkvæmdarstjóri FIFA, hafi sent sér tölvupóst þar sem hann heldur því fram að Katar, með Bin Hammam í fararbroddi, hafi keypt sér þau atkvæði sem þurftu til að fá að halda úrslitakeppni HM árið 2022.

„Fótbolti er ekki í krísu - bara nokkrum erfiðleikum,“ sagði Blatter á áðurnefndum blaðamannafundi.

Mál FIFA hafa vakið mikla athygli og hefur til að mynda breska ríkisstjórnin gefið í skyn að fresta þurfi forsetakosningunni á meðan þessi mál gangi yfir.

„Ef ríkisstjórnir ætla að skipta sér af málefnum okkar þá er eitthvað að,“ sagði Blatter en FIFA er með afar strangar reglur um afskipti yfirvalda.

„Ég held að FIFA sé nægilega sterkt til að takast á við okkar mál innnanhúss.“

Blatter hefur lengi verið sakaður um spillingu og nú síðast fyrir nokkrum dögum. Hann var hreinsaður af þeim ásökunum á sama tíma og Bin Hammam og Warner var bannað að hafa frekari afskipti af knattspyrnu.

Knattspyrnusamband Íslands á vitaskuld atkvæðisrétt í forsetakjörinu á morgun og hefur áður sagst ætla að styðja Blatter.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×