Enski boltinn

Segja Giggs ætla í mál við Twitter

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Forsíða Sunday Herald í dag.
Forsíða Sunday Herald í dag.
Skoska blaðið The Sunday Herald flettir í dag hulunni af knattspyrnumanninum sem hefur fengið lögbann á fréttaflutning um einkalíf sitt. Blaðið segir reyndar ekki nafn leikmannsins en birtir mynd af honum með svörtu fyrir augun. Þar stendur: "ritskoðað".

Undir myndinni stendur síðan að allir viti að þetta sé maðurinn sem hafi fengið lögbann á umfjöllun um einkalíf sitt.

Það dylst engum að þar er á ferðinni sjálfur Ryan Giggs. Skoska blaðið segir hann vera knattspyrnumanninn sem hafi fengið lögbann á umfjöllun um meint samband sitt við Imogen Thomas sem tók þátt í Big Brother-þáttunum á Bretlandi.

Tæknilega má blaðið birta nafn leikmannsins þar sem lögbannið nær ekki yfir Skotland. Flest blöð í nágrenni Englands hafa samt ekki tekið áhættuna þar sem mörg þeirra fara í sölu í Englandi.

Knattspyrnumaðurinn, sem sagður er vera Giggs, hefur barist grimmilega gegn allri umfjöllun um einkalíf sitt en fjandinn varð laus þegar byrjað var að nafngreina hann á Twitter.

Þá var nafn hans skrifað 16 sinnum á mínútu á Twitter er slúðrið fór í fullan gang. Knattspyrnumaðurinn hefur nú ákveðið að lögsækja Twitter þar sem fjöldi einstaklinga á síðunni hafi brotið lögbannið um umfjöllun um einkalíf hans.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×