Enski boltinn

Rauða spjaldið í gær kostar Eið og félaga líklega Evrópusætið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Fulham og Liverpool misstu bæði af Evrópusæti á lokaspretti.
Fulham og Liverpool misstu bæði af Evrópusæti á lokaspretti. Mynd/AP
Eiður Smári Guðjohnsen og félagar í Fulham gerðu 2-2 jafntefli við Arsenal í lokaumferð ensku úrvalsdeildarinnar í gær en það voru ekki stigin sem skiptu mestu máli í leiknum. Rauða spjaldið sem varamaðurinn Zoltan Gera fékk gæti verið Fulham afar dýrkeypt.

Zoltan Gera kom inn á sem varamaður fyrir Bobby Zamora á 71. mínútu og fékk að líta rauða spjaldið aðeins þremur mínútum seinna. Þetta var fyrsta rauða spjaldið sem Fulham fær á leiktíðinni og sér til þess að Blackpool fer upp í efsta sætið sem prúðasta lið deildarinnar.

Prúðasta liðið í ensku úrvalsdeildinni fær sæti í Evrópudeildinni á næsta tímabili og það leit allt út fyrir að það yrðu Fulham-menn þar til að ungverski landsliðsmaðurinn braut illa á Thomas Vermaelen hjá Arsenal.

Eftirlitsmaður leiksins á eftir að skila sinn skýrslu þar sem hann tekur inn fleiri atriði en bara spjöldin þannig að Evrópuvon Fulham er ekki alveg dáin þó að hún sé orðin veik.

Tottenham, Stoke og Birmingham verða í Evrópudeildinni næsta vetur. Tottenham endaði í 5. sæti og hin liðin komast inn í gegnum bikarkeppninnar.

Birmingham féll í gær eins og Blackpool og fái Blackpool auka sætið munu tvö ensk B-deildarlið taka þátt í Evrópudeildinni næsta vetur.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×