Enski boltinn

Tevez ætlaði að skrópa á sigurhátíð Man. City í dag

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez lyfti enska bikarnum.
Carlos Tevez lyfti enska bikarnum. Mynd/AP
Forráðamenn Manchester City vöruðu Carlos Tevez við því að hann verði sektaður ákveði hann að skrópa í sigurhátið Manchester City í dag. Tevez var í gærkvöldi búinn að bóka flug heim til Argentínu í dag.

Carlos Tevez er fyrirliði Manchester City og tók við bikarmeistaratitlinum fyrir níu dögum. City-menn ætluðu að setja bikarafhendinguna aftur á svið í miðborg Manchester í dag til þess að leyfa þeim stuðningsmönnum, sem komust ekki til Wembley, að upplifa þessa risastóru stund í sögu félagsins.

Tevez liggur mikið á að komast heim til dætra sinna Florenciu og Katiu sem búa í Buenos Aries hjá fyrrum kærustu hans, Vanessu. Tevez hefur mikið talað um það að hann vilji búa nær fjölskyldu sinni og er það ein aðalástæða fyrir óánægju hans hjá City.

Nú verða City-menn að láta varafyrirliðann Vincent Kompany lyfta bikarnum eða hætta alveg við þessa bikarafhendingu. Forráðamenn City gerðu allt til þess að reyna að fá Tevez til að mæta í dag. Þeir sendu meðal annars tvö bréf til Tevez, eitt á ensku og eitt á spænsku, til þess að vera öryggir um að hann kenndi ekki tungumála-misskilningi um að hann skrópaði í sigurhátíðinni.

Tevez ætlar líka að nota ferðina til Buenos Aries til að reyna að sannfæra Vanessu um að flytja til Ítalíu eða Spánar en hún fann sig aldrei á Englandi enda talar hún bara spænsku. Tevez ætlar þá að gera sitt í því að reyna að komast til Real Madrid eða Internazionale.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×