Enski boltinn

Tevez mætti á sigurhátíð Man. City en Balotelli skrópaði

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Carlos Tevez sýnir stuðningsmönnunum bikarinn.
Carlos Tevez sýnir stuðningsmönnunum bikarinn. Mynd/AP
Forráðamenn Manchester City hafa þurft að hafa eilífar áhyggjur af framherjunum Carlos Tevez og Mario Balotelli allt þetta tímabil og það var að sjálfssögðu framhald á því þótt að tímabilinu væri lokið.

Manchester City tryggði sér bikarmeistaratitilinn á dögunum sem var fyrsti titill félagsins í 35 ár og af því tilefni var sigurhátið í Manchester-borg í gær. Flestir myndu fagna tækifærinu að fagna frábæru tímabili með liðsfélagi sínu og stuðningsmönnum en fyrrnefndir framherjar voru ekki alveg á sama máli.

Forráðamenn Manchester City þurftu nefnilega að hóta að sekta fyrirliðann Carlos Tevez til þess að fá hann til að seinka heimför til Argentínu og mæta. Mario Balotelli sleppur hinsvegar við refsingu en hann mætti ekki í fögnuðinn þar sem að hann fór fyrr heim til Ítalíu vegna fjölskylduástæðna.

Tevez mætti og það skipti félagið miklu máli enda hefði verið missir af agrentínska fyrirliðanum sem á svo mikinn þátt í velgengni liðsins á þessu tímabili. Það breytir því þó ekki að Tevez vinnur hörðum höndum að því að komast til annaðhvort Real Madrid eða Internazionale.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×