Íslenski boltinn

Björn Jónsson í KR - Ingólfur á ekki afturkvæmt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR.
Rúnar Kristinsson, þjálfari KR. Mynd/Vilhelm
Björn Jónsson er genginn til liðs við KR en hann hefur verið á mála hjá Heerenveen í Hollandi síðustu ár. Björn lék með yngri flokkum ÍA áður en hann hélt til Hollands árið 2005, þá fimmtán ára gamall.

Björn hefur verið að skoða sín mál síðustu vikur en hann fékk sig lausan frá Hollandi fyrr í vetur. Á endanum ákvað hann að ganga til liðs við KR.

„Við vorum búnir að hitta hann fyrr í vetur og ræða við hann um að koma til KR," sagði Rúnar Kristinsson, þjálfari liðsins. „Hann vildi skoða ýmislegt annað fyrst og æfði til að mynda með FH. Hann hafði fullan rétt á því enda laus allra mála frá Hollandi."

„Hann ákvað svo að koma til okkar enda mikill áhugi hjá okkur að fá hann auk þess sem að hann vildi koma. Við vitum að hann er góður leikmaður og bindum vonir við hann, eins og alla okkar leikmenn."

Björn getur leikið sem sóknartengiliður á miðju sem og í fremstu víglínu. „Ég vildi styrkja liðið með slíkum leikmanni, ekki síst þar sem að Ingólfur Sigurðsson mun ekki spila áfram með meistaraflokknum. Björn mun gefa okkur fleiri möguleika í þessari stöðu."

Hann segir ljóst að Ingólfur eigi ekki afturkvæmt í meistaraflokk KR en hann hefur síðustu daga reynt að fá sig lausan frá félaginu.

„Ég sé enga ástæðu til þess að taka hann til baka í leikmannahóp KR þegar hann er búinn að koma svona fram við leikmenn og starfsmenn liðsins. Það er erfitt að snúa til baka eftir það," sagði Rúnar.

Hann sagði að mál Ingólfs væri í vinnslu en að enn ætti eftir að koma í ljós hvort að hann færi annað áður en félagaskiptaglugginn lokar á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×