Enski boltinn

Gold ætlar að finna eftirmann Grant fljótt

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Nordic Photos / Getty Images
David Gold, stjórnarformaður West Ham, ætlar sér ekki að taka langan tíma til að ráða nýjan knattspyrnustjóra til félagsins en Avram Grant var rekinn nú um helgina.

Grant var rekinn aðeins nokkrum mínútum eftir að West Ham féll úr ensku úrvalsdeildinni. Liðið tapaði þá 3-2 fyrir Wigan eftir að hafa komist 2-0 yfir í leiknum.

Meðal þeirra sem hafa verið orðaðir við starfið er Steve McClaren, fyrrum landsliðsþjálfari Englands.

„Því fyrr, því betra,“ sagði Gold þegar hann var spurður um málið. „Það er mikilvægt. Það er mikil vinna fram undan en við verðum samt að taka yfirvegaða ákvörðun. Við erum að leita að manni sem getur komið okkur aftur upp í ensku úrvalsdeildina og haldið svo áfram eftir það.“

„Það eru allir sem koma til greina. Það er mikilvægt að við gefum okkur tíma til að taka við ferilskrám og ég er viss um að margir hafi áhuga á að þessu starfi. Það er mikilvægt að við veljum réttu manneskjuna.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×