Enski boltinn

Reading mætir Swansea á Wembley

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Mynd/Nordic Photos/Getty
Reading er komið alla leið í úrslitaleikinn um sæti í ensku úrvalsdeildinni eftir 3-0 útisigur á Cardiff í kvöld í seinni undanúrslitaleik liðanna í úrslitakeppni ensku b-deildarinnar. Fyrri leiknum lauk með markalausu jafntefli á heimavelli Reading.

Shane Long skoraði tvö fyrstu mörkin í fyrri hálfleik og Jobi McAnuff innsiglaði síðan sigurinn í seinni hálfleiknum. Brynjar Björn Gunnarsson sat allan tímanna á varamannabekk Reading og Ívar Ingimarsson var ekki í hópnum.

Reading mætir velska liðinu Swansea City á Wembley 30. maí næstkomandi en eftir úrslit fyrri leiksins bjuggust flestir við velskum slag í úrslitaleiknum en annað kom á daginn. Swansea City komst í úrslitaleikinn eftir 3-1 sigur í seinni leiknum á móti Nottingham Forest í gærkvöldi.

Shane Long skoraði fyrra markið sitt á 28. mínútu eftir klaufalega mistök Stephen Bywater, markvarðar Cardiff. Bywater fór í skógarferð út úr teignum og skaut boltanum í Long sem átti síðan ekki í miklum vandræðum með að senda boltann í autt markið.

Long skoraði síðara mark sitt úr vítaspyrnu á 40. mínútu eftir að Matthew Mills var togaður niður í teignum. Cardiff hafði þrisvar sinnum heimtað víti í fyrri hálfleiknum en fékk síðan dæmt á sig algjörlega rétt dæmt víti.

Jobi McAnuff skoraði síðan þriðja markið á 84. mínútu eftir laglegan einleik í gegnum vörn Cardiff-manna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×