Enski boltinn

Dalglish ánægður með unglingana Flanagan og Robinson

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
John Flanagan
John Flanagan Mynd/Nordic Photos/Getty
Jamie Carragher og Andy Carroll verða væntanlega fjarri góðu gammni þegar Liverpool mætir Birmingham City í ensku úrvalsdeildinni um helgina. Kenny Dalglish mun því halda áfram að nota unglingana John Flanagan og Jack Robinson.

Carragher rotaðist í jafnteflinu á móti Arsenal á sunnudaginn eftir að hafa lent í samstuði við félaga sinn John Flanagan. Andy Carroll var síðan tekinn af velli í Arsenal-leiknum eftir að hafa fengið högg á hné.

Kenny Dalglish, stjóri Liverpool, er reyndar ekki alveg búinn að afskrifa það að geta notað þá Carragher og Carroll sem fara báðir í gegnum læknisskoðun á morgun. Hún mun endanlega skera út um það hvort þeir geti verið með.

„Við verðum að bíða og sjá til með þá Carra og Andy. Það er enn tími fram að leik en eins og staðan er núna þá er mikil óvissa með þá," sagði Kenny Dalglish.

Dalglish er himinlifandi með frammistöðu unglinganna John Flanagan og Jack Robinson sem voru báðir með á móti Arsenal en Flanagan hefur byrjað undanfarna tvo leiki. Þeir verða væntanlega í byrjunarliðinu á móti Birmingham.

„Við erum mjög ánægðir með þessa stráka og það að þeir hafi stigið þessi fyrstu spor sín á móti liðum eins og Man City og Arsenal segir mikið um þá. Ég vona að þeir haldi áfram á sömu braut en við erum ekki að missa okkur og vitum að það þarf að passa upp á þá báða. Þeir eru bara krakkar ennþá," sagði Dalglish.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×