Enski boltinn

Cech: Þetta verður bara á milli Chelsea og Manchester United

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Petr Cech.
Petr Cech. Mynd/Nordic Photos/Getty
Petr Cech, markvörður Chelsea, segir að baráttan um Englandsmeistaratitilinn sé nú aðallega á milli Chelsea og Manchester United og að Arsenal sé þegar búið að klúðra sínum möguleika á að vera með í titilbaráttunni.

Chelsea hefur unnið fimm leiki og gert eitt jafntefli í síðustu sex leikjum á sama tíma og Arsenal hefur gert fimm jafntefli og aðeins unnið einn leik. Bæði liðin eru sex stigum á eftir toppliði Manchester United þegar fimm leikir eru eftir en Chelsea er með betri markatölu.

„Arsenal spilaði mjög mikilvægan leik á móti Tottenham. Þeir komust í 3-1 en köstuðu sigrinum frá sér. Nú eru þeir komnir niður í þriðja sætið í fyrsta sinn í langan tíma og við skulum sjá hvernig þegar ráða við þá nýju stöðu. Þeir fengu fullt af tækifærum til að minnka forskot United og tókst ekki að nýta þau," sagði Petr Cech.

„Við höfum sagt það lengi að við ætlum að halda áfram að vinna okkar leiki og halda pressunni á öll hin liðin. Arsenal á eftir erfiða leiki og United þarf bæði að spila við okkur og Arsenal. Þeir gætu því mögulega misst sex stig í þeim leikjum," sagði Cech.

„Við eigum næst tvo heimaleiki á móti West Ham og Spurs og með sigrum gæti staðan breyst enn frekar. Chelsea gekk skelfilega fyrir nokkrum mánuðum en nú erum við farnir að líkjast okkur sjálfum á ný," segir Cech sem telur að undanúrslitaleikirnir í Meistaradeildinni mun trufla United-liðið í næstu leikjum.

„Þeir þurfa að spila þessa undanúrslitaleiki og við sjáum hvernig þeir ráða við það. Við getum einbeitt okkur að einni keppni og höfum alla vikuna til að undirbúa okkur fyrir leikina. Þetta er allt mjög jafnt og það er líka mikilvægt að skora mörg og bæta markatöluna. Markatalan gæti ráðið úrslitunum á endanum," sagði Cech.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×