Erlent

Sannir Finnar sexfölduðu fylgi sitt

Timo Soini, leiðtogi Sannra Finna.
Timo Soini, leiðtogi Sannra Finna. MYND/AFP
Allt er á öðrum endanum í finnskum stjórnmálum eftir að ríkisstjórnin féll og þjóðernisflokkurinn Sannir Finnar nærri sexfaldaði þingmannafjölda sinn í kosningum í landinu í gær. Leiðtogi flokksins segir mikilvægt að Evrópa virði vilja finnsku þjóðarinnar.

Timo Soini leiðtogi Sannra Finna var í skýjunum þegar úrslitin lágu fyrir en flokkur hans varð þriðji í kosningunum og náði inn 39 þingmönnum af þeim 200 sem sæti eiga á finnska þinginu.

Sannir Finnar lögðu áherslu á takmörkun innflytjenda í kosningabaráttu sinni og gerðu út á andstöðu við Evrópusambandið. Núverandi ríkisstjórnarflokkar eru allir fylgjandi Evrópusamstarfi en margir Finnar eru óánægðir með björgunarpakka ESB til Portúgals og fleiri ríkja.

Í ljósi þess sagði Soini mikilvægt að Evrópa myndi virða vilja finnsku þjóðarinnar og lagði áherslu á að flokkur sinn væri ekki hægri flokkur. Sigurvegari kosninganna var hinsvegar íhaldsflokkurinn Þjóðarbandalagið  sem lítur hýru auga til frekari Evrópusamvinnu. Margir spá því að Jyrki Katainein leiðtogi Þjóðarbandalagsins verði næsti forsætisráðherra landsins en þetta er í fyrsta skipti sem flokkurinn er sá stærsti á finnska þinginu frá stofnun hans.

Finnskir fjölmiðlar hafa veirð yfirlýsinglaðir í morgun og til að mynda stóð orðið BYLTING á forsíðu blaðsins Aamulethi. Þá töluðu menn um að fögnuður Sannra -Finna hefði verið fögnuður gleymdrar þjóðar.

Árangur Sannra Finna er ekki síst athyglisverður í ljósi þess að í kosningunum árið 2007 hlaut flokkurinn eingunigs fjögurra prósenta fylgi, en fékk nú næstum 20%.

Andstaða flokksins við Evrúna er talinn hafa aflað honum nokkurra vinsælda, en skoðanakannanir í aðdraganda kosninganna höfðu bent til þess að ríkisstjórnin myndi naumlega halda velli.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×