Enski boltinn

Drogba: Toure er ekki svindlari

Eiríkur Stefán Ásgeirsson skrifar
Toure upp í stúku á leik með City.
Toure upp í stúku á leik með City. Nordic Photos / Getty Images
Didier Drogba hefur komið landa sínum, Kolo Toure hjá Manchester City, til varnar eftir að sá síðarnefndi féll á lyfjaprófi.

Toure lék áður með Arsenal og fyrrum stjóri hans þar, Arsene Wenger, hefur sagt í fjölmiðlum að Toure hafi tekið inn megrunarlyf eiginkonu sinnar þar sem hann hafi átt í vandræðum með að viðhalda réttri þyngd.

Toure tók prófið eftir leik City gegn Manchester United í síðasta mánuði en hefur ekki spilað síðan málið kom upp í upphafi mánaðarins.

Drogba segir að það væri slæmt fyrir landslið Fílabeinsstrandarinnar ef Toure yrði dæmdur í keppnisbann.

„Hann er einn af okkar mikilvægustu leikmönnum enda einn af þeim eldri og reyndari í hópnum," sagði Drogba í gær.

„Við vitum allir að þetta var heimskulegt hjá honum enda mistök. Ég tel ekki að þetta hafi verið gert til að bæta frammistöðu hans á vellinum."

„Þetta voru bara mistök og okkur finnst þetta mjög leiðinlegt fyrir hans hönd. Hann nýtur stuðnings okkar en meira getum við ekki gert."

„Ég ræddi við hann og hann var frekar niðurlútur. Það er eðlilegt en hann sagði að þetta hafi bara verið einföld mistök. Hann sagði mér í raun það sama og Wenger var búinn að segja í fjölmiðlum."




Fleiri fréttir

Sjá meira


×