Enski boltinn

Wenger staðfestir að Lehmann verði með Arsenal út tímabilið

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jens Lehmann.
Jens Lehmann. Mynd/Nordic Photos/Bongarts
Arsène Wenger, stjóri Arsenal, hefur staðfest það að félagið sé búið að gera samning við þýska markvörðinn Jens Lehmann út tímabilið. Lehmann mun verða varamarkvörður Manuel Almunia þar sem að allir aðrir markverðir liðsins eru frá vegna meiðsla.

„Lehmann er að æfa með okkur og hann mun semja við okkur til loka tímabilsins. Við höfum engan varamarkvörð og því ákvað ég að fá Jens til baka. Hann er búinn að samþykkja samninginn en á reyndar eftir að skrifa undir," sagði Arsène Wenger.

Jens Lehmann verður væntanlega á bekknum hjá Arsenal-liðinu um helgina þegar liðið mætir West Bromwich Albion. Lukasz Fabianski og Wojciech Szczesny eru báðir frá vegna meiðsla og Vito Mannone sem hefur verið í láni hjá Hull er einnig að glíma við meiðsli.

Lehmann er 41 árs gamall og lagði skóna á hilluna síðasta vor eftir tvö tímabil með Stuttgart í heimalandinu. Hann spilaði 194 leiki með Arsenal frá 2003 til 2008 og vann tvo stóra titla með félaginu, enska meistaratitilinn 2004 og enska bikarinn 2005.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×