Erlent

Enn er vitað um fólk á lífi

Frá höfuðborginni Port au Prince.
Frá höfuðborginni Port au Prince. Mynd/AP
Enn er vitað um fólk á lífi í rústum húsa á Haíti. Félagar í íslensku rústabjörgunarsveitinni unnu fram á nótt að íslenskum tíma með bandarískri sveit við leit á tveimur svæðum suður af flugvellinum í Port au Prince. Með þeim voru friðargæsluliðar frá Sameinuðu þjóðunum því mjög er óttast um öryggi hjálparstarfsmanna.

Sem dæmi um það má nefna að öllum læknum og hjúkrunarkonum sem unnu á bráðabirgðasjúkrahúsi sem komið var upp eftir að skjálftinn reið yfir var skipað að yfirgefa sjúklinga sína í gær. CNN segir að þetta hafi verið gert vegna ótta um að óeirðir væru að brjótast út í nágrenninu.

Í Port au prince eru nú 23 björgunarsveitir með 1067 björgunarsveitarmönnum og 114 leitarhundum að leita að eftirlifendum í rústum húsa. Jákvæðum fréttum af þessum björgunaraðgerðum fækkar á hverjum klukkutíma.

Örvænting er farin að grípa um sig á meðal íbúa því afar erfiðlega gengur að koma vatni og helstu nauðsynjum áleiðis. Fregnir hafa borist að gripdeildum og átökum á meðal fólks um mat sem dreif hefur verið af hjálparstofnunum. Bandarískir hermenn eru á leiðinni til að tryggja að óeirðir brjótist ekki út.

Eins og við er að búast eru tölur látinna mjög á reiki. Nú þegar hafa tæplega 50 þúsund lík fundist. Talið er að 40 þúsund lík til viðbótar séu grafin í rústum húsa og óttast er að tala látinni verði á endanum í kringum 200 þúsund.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×