Ólafur Ragnar Grímsson tilkynnir um ákvörðun sína varðandi lög um ríkisábyrgð vegna Icesave á Bessastöðum klukkan 11 í dag. Þá kemur í ljós hvort hann staðfestir lögin eða synjar.
Lögin voru samþykkt 30. desember og afhent forsetanum til undirritunar á gamlársdag. Þá tilkynnti hann að hann tæki sér umþóttunartíma vegna málsins. Á laugardag hitti hann fulltrúa Indefence sem afhentu honum tugþúsund áskoranir um að vísa málinu til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Ólafur Ragnar fundaði á sunnudag einslega með fjórum ráðherrum; þeim Jóhönnu Sigurðardóttur forsætisráðherra, Steingrími J. Sigfússyni fjármálaráðherra, Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra og Gylfa Þ. Magnússyni, efnahags- og viðskiptaráðherra.
Þá hefur Fréttablaðið heimildir fyrir því að á mánudag hafi hann rætt símleiðis við Má Guðmundsson seðlabankastjóra, og fleiri sérfræðinga, um efnahagslegar afleiðingar þess að synja frumvarpinu staðfestingar.
Forsetinn ræddi ekki við forystumenn stjórnarandstöðunnar og hafði ekki samband við Franek Roswadowski, fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi.
Forystumenn Alþýðusambands Íslands, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, Samtaka atvinnulífs og Samtaka iðnaðarins hvetja allir forsetann til að staðfesta frumvarpið hið fyrsta.
Óvíst er hvað gerist staðfesti Ólafur Ragnar ekki lögin. Engin lög eru til um framkvæmd þjóðaratkvæðagreiðslu.
- kóp, bþs, bj /