Erlent

Fréttaskýring: Leiðtogaráðið tekur umsókn Íslands fyrir

Stefán Haukur Jóhannesson og Össur Skarphéðinsson Formaður samninganefndar Íslands ásamt utanríkisráðherra.Fréttablaðið/GVA
Stefán Haukur Jóhannesson og Össur Skarphéðinsson Formaður samninganefndar Íslands ásamt utanríkisráðherra.Fréttablaðið/GVA

Hvað tekur nú við í aðildarumsókn Ísland að ESB?

Leiðtogaráð Evrópusambandsins samþykkir að öllum líkindum aðildarviðræður við Ísland á fundi sínum í dag. Þá fer af stað ferli, sem getur staðið hátt í tvö ár eða jafnvel lengur.

„Næsta skref er að kalla saman það sem Evrópusambandið kallar milliríkjaráðstefnu,“ segir Stefán Haukur Jóhannesson, sendiherra Íslands gagnvart Evrópusambandinu í Brussel, sem jafnframt er formaður íslensku samninganefndarinnar.

Stefán segir ekki vitað hvenær þessi fundur verður haldinn, en almennt er reiknað með að það verði í haust. Á þeirri ráðstefnu koma saman ráðherrar allra aðildarríkjanna 27 ásamt Össuri Skarphéðinssyni utanríkisráðherra og ýta viðræðunum formlega úr vör.

Eiginlegar aðildarviðræður hefjast þó varla fyrr en næsta vor, því eftir ríkjaráðstefnuna hefst vinna við nákvæman samanburð á löggjöf Íslands og löggjöf Evrópusambandsins, þar sem sérfræðingar af beggja hálfu skilgreina nákvæmlega hvað ber á milli og hvar þarf að brúa bilin.

Fyrst að þeim samanburði loknum verður hægt að hefja hinar efnislegu viðræður, sem geta tekið ár eða meira, allt eftir því hve mikið ber á milli í hverjum kafla viðræðnanna.

Samningsmarkmið Íslands voru skilgreind í meginatriðum í nefndaráliti meirihluta utanríkismálanefndar frá 9. júlí 2009. Íslenska samninganefndin hefur haft þetta nefndarálit að leiðarljósi í störfum sínum hingað til.

„Heimavinnan okkar hefur gengið bara vel og allt á réttri leið hvað það varðar,“ segir Stefán Haukur. „Samningahóparnir eru búnir að hittast nokkrum sinnum, misoft eftir sviðum. Þeir hafa verið að fara yfir löggjöf Evrópusambandsins og greina þetta hvað okkur varðar.“

Af hálfu Evrópusambandsins verður, eins og jafnan í aðildarviðræðum, áhersla lögð á að Ísland taki upp löggjöf sambandsins óbreytta. Íslendingar reyna aftur á móti að fá samþykki fyrir undanþágum eða sérlausnum út frá hagsmunum Íslands.

Mikil áhersla verður lögð á að upplýsa Íslendinga jafnóðum um gang viðræðnanna. Nú þegar hefur verið opnuð upplýsingasíða á vef utanríkisráðuneytisins, evropa.utanrikisraduneyti.is, þar sem er að finna hafsjó af upplýsingum um aðildarviðræðurnar.

gudsteinn@frettabladid.is



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×