Erlent

Viltu sofa hjá pabba?

Óli Tynes skrifar

Fimmtíu og fimm ára gamall maður á Taivan hefur verið handtekinn fyrir að tæla um tuttugu konur til fylgilags við sig. Hann þóttist þá vera pabbi sinn.

China Post segir frá þessu undarlega máli. Hsu Shian-ming er sem fyrr segir fimmtíu og fimm ára gamall og ber það alveg með sér. Hann girntist mjög ungar konur en þær vildu ekki líta við honum.

Hsu greip þá til þess ráðs að setja mynd af stórglæsilegum ungum manni á netið og óska eftir rómantísku sambandi.

Fjölmargar konur svöruðu kallinu. Netsamband þróaðist í símasamband og í símasambandinu sagði Hsu klökkur frá því að faðir hans væri haldinn sjaldgæfum sjúkdómi. Hann þyrfti sífellt að stunda kynlíf til þess að halda lífi.

Ef þær vildu nú vera svo elskulegar að hjálpa til við að bjarga lífi pabba, myndu þær svo eiga heita fundi með sér sjálfum á eftir.

China Post segir að uppundir tuttugu konur hafi fallið fyrir þessu. Þær hafi hitt Hsu á hinum og þessum hótelum og gert allt sem þær gátu til þess að halda í honum líftórunni.

Upp komst um málið þegar ein konan varð tortryggin yfir því hversu illa gekk að fá að hitta glæsilega "soninn". Hún réði sér einkaspæjara sem komst að hinu sanna.

Óstaðfestar fregnir herma að Hsu hafi ennþá verið með sælubros á andlitinu þegar löggan kom og sótti hann.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×