Innlent

Ragnar áður neyddur í fíkniefnasmygl

Andri Ólafsson. skrifar

Handtaka Ragnars Erlings Hermannssonar í Brasilíu í síðustu viku á rætur sínar að rekja til mislukkaðrar smygltilraunar Ragnars á fíkniefnum frá Danmörku til Íslands fyrir tveimur mánuðum. Það reyndist honum dýrkeypt því í staðinn var honum gert að sækja fíkniefni til Brasilíu þar sem hann situr nú í fangelsi.

Ragnar hefur sagt lögreglunni í Brasilíu að hann hafi verið þvingaður til að sækja kókaín til Brasilíu af íslenskum eiturlyfjasölum sem hann skuldaði peninga. Ragnar gekk meira segja svo langt að segja að hann yrði drepinn færi hann ekki í ferðina

Samkvæmt heimildum fréttastofu er þetta önnur smyglferðin sem lánadrottnar Ragnars hafa sent hann í. Fyrir tveim mánuðum síðan var Ragnar sendur til Kaupmannahafnar en þar átti hann að sækja tösku fulla af fíkniefnum og koma með til Íslands. Ef smyglið myndi heppnast yrði skuld hans við íslenska fíkniefnasala afskrifuð.

Ragnar sótti efnin og gerði sig tilbúin til að fara með þau til Íslands. Á síðustu stundu ákvað hann hins vegar að láta ekki verða af ferðinni. Hann fór þess í stað með fíkniefnin til systur sinnar sem býr í Kaupmannahöfn og skildi þau eftir þar.

Því næst flaug hann heim til íslands og á fund lánadrottna sinna. Þar útskýrði hann fyrir þeim að hann hefði guggnað á ögurstundu og þeir yrðu að finna annað burðardýr.

Fíkniefnasalarnir sendu þá mann til systur Ragnars til að sækja fíkniefnin. Sá maður kom hins vegar of seint. Systir Ragnars hafði rétt áður farið með fíkniefnin til lögreglunnar í Kaupmannahöfn af ótta við að hún sjálf yrði bendluð við málið.

Ragnar sat þá eftir í súpunni. Einföld smyglferð frá Kaupmannahöfn til Keflavíkur dugði ekki lengur til að greiða þá skuld sem hann var nú kominn í við fíkniefnasalana. Þeir kynntu honum því nýja afarkosti. Rangar skyldi halda til Brasilíu og sækja þar kókaín og koma því til Malaga á Spáni. Ragnar féllst á þetta enda óttaðist hann afleiðingarnar af því að standa í hárinu á mönnunum sem hann skuldaði.

Eftirmálin eru alkunn. Ragnar situr í alræmdu fangelsi í Brasilíu og hans bíður þungur dómur.

En ekkert bólar á handtökum þeirra sem virðast hafa skipulagt og fjármagnað smyglið afdrifaríka.







Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×